11/04/2022 • Halla Árnadóttir

Áhersla lögð á að fjölga konum í upplýsingatækni

Halla Árnadóttir er forstöðumaður mannauðs- og launalausna hjá Origo og Unnur Sól Ingimarsdóttir, listrænn framendaforritari í stafrænum lausnum.

Halla Árnadóttir, forstöðumaður mannauðs- og launalausna hjá Origo og Unnur Sól Ingimarsdóttir, listrænn framendaforritari í stafrænum lausnum.

Ljósmynd: Anton Brink fyrir Fréttablaðið

Origo hefur lagt gríðarlega mikla áherslu á þróun á eigin hugbúnaði síðastliðin ár og má þar nefna lausnir fyrir ferðaþjónustuna, heilbrigðisgeirann og mannauðs- og launalausnir. Markmið Origo er að auka fjölbreytileika meðal starfsfólks, fjölga konum í upplýsingatækni og fjölga ráðningum ungra og upprennandi einstaklinga.

Lögð er áhersla á að jafna kynjahlutfallið þegar ráðið er inn í Origo og í fyrra voru ráðnir um 80 starfsmenn og voru 43% þeirra konur, markmiðið er að komast í 50%.

Halla Árnadóttir

Konur eru um 30% starfsmanna fyrirtækisins en Origo hefur unnið markvisst að því síðustu árin að auka það hlutfall og þannig fjölga konum í upplýsingatækni. Halla Árnadóttir starfar sem forstöðumaður mannauðs- og launalausna Origo.

„Í mannauðs og launalausnum þróum við og þjónustum leiðandi mannauðs- og launalausnir, til að einfalda störf þeirra sem starfa á sviði mannauðs- og launamála og auka upplýsingagjöf til stjórnenda og starfsfólks. Með því aukum við virði tíma þeirra og sjálfstæði. Við erum bæði með SAP mannauðs- og launalausnina og Kjarna, sem er heildstæð mannauðs- og launalausn, hönnuð og þróuð af Origo.

Kjarni samanstendur af mismunandi kerfishlutum sem eru samtvinnaðir í eina heild. Kerfishlutarnir í Kjarna eru mannauður, laun, launaáætlun, ráðningar, fræðsla, frammistöðumat, viðvera, mötuneyti og dagpeningar.

Lausninni fylgir líka vefviðmót og app þar sem stjórnendur og starfsfólk geta nálgast helstu mannauðs- og launaupplýsingar. Viðskiptavinir geta valið hvaða kerfishluta þeir vilja nýta, auk þess sem Kjarni býður upp á tengingar við ýmsar aðrar lausnir, svo sem Business Central, Moodup, Power BI og Active Directory auk helstu ráðninga- og viðverukerfanna á íslenska markaðnum. Mikill kostur er að hafa þessar upplýsingar allar í einu og sama kerfinu, eða með tengingum við önnur kerfi, til að koma í veg fyrir tvískráningu upplýsinga.“

Starfið hefur þróast

Halla er viðskiptafræðingur og segir að við útskrift frá Háskólanum í Reykjavík árið 2001 hafi hún séð fyrir sér að vinna að mannauðsmálum.

„Fyrsta starfið mitt eftir útskrift var í mannauðsdeild Skeljungs og þar hófum við innleiðingu á SAP mannauðs- og launakerfi frá Nýherja, forvera Origo. Mér fannst það vera mjög skemmtilegt og spennandi ferli. Þegar mér bauðst að færa mig yfir til Nýherja árið 2004 til að vinna við ráðgjöf í SAP mannauðs- og launalausninni, ákvað ég að slá til og sé alls ekki eftir því. Starfið mitt hefur þróast mikið á þessum árum sem ég hef starfað hjá Origo. Árið 2013 var ákveðið að fara út í þróun á nýrri mannauðs- og launalausn fyrir íslenskan markað og í kjölfarið varð Kjarni til. Ég hef verið með vörustjórn í Kjarna frá þeim tíma og tók svo að mér forstöðumannshlutverk í teyminu árið 2018. Þetta er lifandi og spennandi umhverfi með frábærum samstarfsfélögum og eftir öll þessi ár hjá Origo finnst mér ég samt alltaf vera að læra eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Viðskiptafræðin hefur nýst mér vel, en eftir á að hyggja hefði nýst mér enn betur að taka tölvunarfræði sem aukagrein, þar sem það stóð til boða á sínum tíma í Háskólanum í Reykjavík. Það hvarflaði aftur á móti ekki að mér á sínum tíma, líklega vegna þess að þá var svo lítið um konur í þessum geira, en ég hefði klárlega farið þá leið ef ég stæði frammi fyrir þessari ákvörðun í dag.“

Halla segir að konur séu um 30% starfsmanna Origo en að hlutfallið í teyminu hennar sé reyndar ólíkt þar sem þar eru konur um 70%. „Það er mjög góður andi í teyminu okkar, sem spannar breiðan aldurshóp og ólíka einstaklinga með mismunandi bakgrunn og reynslu. Allir í teyminu eru metnaðarfullir og leggjast á eitt við að þróa gæðavörur, með áherslu á öryggi og gott notendaviðmót.“

Lögð er áhersla á að jafna kynjahlutfallið þegar ráðið er inn í Origo og í fyrra voru ráðnir um 80 starfsmenn og voru 43% þeirra konur, markmiðið er að komast í 50%. Konur voru hins vegar einungis 33% umsækjenda í fyrra svo það eru færri konur sem sækja um þessi störf.

Öryggi, aðgengismál og gæði

Unnur Sól Ingimarsdóttir vinnur sem listrænn framendaforritari í stafrænum lausnum Origo. „Þar erum við að smíða og þróa veflausnir fyrir alls konar fyrirtæki, allt frá fallegum og einföldum ytri vefjum yfir í flókin innri kerfi. Við tökum þátt í stafrænum umbyltingarverkefnum fyrir fyrirtæki þar sem við komum að greiningu, hönnun, útfærslu og viðhaldi verkefnanna. Við leggjum mikla áherslu á öryggi, aðgengismál og gæði í okkar hugbúnaðargerð og erum öll mjög metnaðarfull þegar kemur að þessu. Ég er mjög þakklát fyrir teymið mitt í Stafrænum lausnum. Í hópnum er mikil hvatning, góður mórall og einstakir hæfileikar. Hópurinn er einnig mjög fjölbreyttur og samanstendur af 19 körlum og 12 konum.“

Unnur Sól segist vera með ástríðu fyrir því að búa til sjarmerandi og notendavænar veflausnir. Hún er með BSc í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur starfað sem vefforritari hjá Origo frá því hún útskrifaðist 2018. „Ég vann sem teiknari samhliða menntaskóla- og háskólanámi og sú reynsla hefur bæði nýst mér vel við þróun á góðu notendaviðmóti og í samskiptum við viðskiptavini. Ég var í sumarstörfum sem forritari þegar ég var í tölvunarfræðináminu og hef einnig tekið þátt í ýmsum sprotaverkefnum, en þau hafa verið innspýting fyrir forritunar- og skipulagshæfni mína.“

Hvers vegna heillaði upplýsingatæknin upphaf lega? „Ég er mikill tölvuleikjaunnandi og raungreinanörd og upphaflega fannst mér mjög heillandi að geta unnið við að þróa tölvuleiki. Þegar leið á námið og ég fékk að kynnast möguleikum tölvunarfræðinnar þá minnkaði spenningurinn fyrir því að vinna við tölvuleikjagerð en ég varð gagntekin af vinnslu og framsetningu gagna á vefnum. Mig langaði að taka þátt í að gera vefheiminn sem nytsamlegastan fyrir notendur og sá svo ótal mörg tækifæri í því. Svo finnst mér bara svo ótrúlega skemmtilegt að geta blandað saman listrænu og raungreinaeiginleikunum mínum sem framendaforritari.“

Margar kvenkyns fyrirmyndir

Hvað varðar konur í upplýsingatækni segir Unnur Sól að alltaf séu að bætast við nýjar kvenkyns fyrirmyndir í þessum geira. „Ég sé fyrir mér að það hafi mjög jákvæð áhrif á fjölda kvenna sem sækir nám og störf í upplýsingatækni. Ég hef fengið að heyra frá konum að þær hefðu verið efins um að námið væri fyrir þær, þar sem staðalímynd tölvunarfræðingsins er fremur karllæg. Eitt af verkefnum Origo næstu árin er að leggja enn meira af mörkum til að hvetja ungar konur til náms í tæknigreinum, en einnig að sækjast eftir tækifærum í tæknigeiranum.

Ég hef unnið með ótrúlega mörgum flottum konum í upplýsingatækni og mér finnst kvenlegir eiginleikar eiga alveg einstaklega vel við verkefnin. Það er svo frábært að vinna verkefni með fjölbreyttum hópi af einstaklingum og afurðirnar verða þeim mun betri.“

Þessi grein er skrifuð af Fréttablaðinu fyrir sérblaðið Konur í Upplýsingatækni

Meira um samfélagsstefnu Origo hér.

https://images.prismic.io/new-origo/c09e65ff-0502-468c-bdb4-11a2c888ee9d_hallaarnadottir.jpg?auto=compress,format

Höfundur blogs

Halla Árnadóttir

Forstöðumaður mannauðs- og launalausna hjá Origo

Deila bloggi