Stefna um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð

Brand myndefni

Gildissvið og tilgangur stefnunnar

Origo er leiðandi þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni og felst hlutverk félagsins í að aðstoða viðskiptavini við að ná enn betri árangri í sínum rekstri með aðstoð upplýsingatækni, sérfræðiþekkingar starfsfólks og lipurri þjónustu. Hjá Origo starfa um 500 sérfræðingar í upplýsingatækni. Félagið kemur að mörgum innviðum samfélagsins og getur því haft mikil og víðtæk áhrif í samfélaginu.

Origo trúir því að betri tækni bæti lífið. Reynsla Origo sýnir að félagið ávinnur sér traust með sérþekkingu starfsmanna sinna og með því að hlusta á viðskiptavini. Það, ásamt þekkingu á markaðnum, gefur félaginu tækifæri til að búa til lausnir og þjónustu sem breyta leiknum til góðs. Origo er stöðugt að þróa lausnir og þjónustu með það að markmiði að viðskiptavinir þeirra skari fram úr.

Áherslur sjálfbærni og samfélagsábyrgðar kalla á uppbyggingu nýrra viðskiptamódela í heiminum þar sem hugað er að því að kjarnastarfsemi rekstrareiningar leggi sitt af mörkum til að byggja upp sjálfbæran heim og taki þátt í mótun hringrásarhagkerfisins. Þessu viljum við taka þátt í.

Með sjálfbærnistefnu sinni lýsir félagið yfir að það ætli á ábyrgan hátt að vinna að því að skilgreina og lágmarka neikvæð áhrif á samfélagið og auka þau jákvæðu. Með þessari stefnu leggur félagið áherslu á að hafa áhrif á hagaðila félagsins og beita áhrifum upplýsingatækninnar til góðs fyrir umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS).

Stefnan nær til móðurfélagsins og allra dótturfélaga Origo.

Hagaðilar

Helstu hagaðilar Origo, innri og ytri, eru starfsmenn, viðskiptavinir, dótturfélög, birgjar, samstarfsaðilar, stjórnvöld og stofnanir.

Um 30% af vinnuafli landsins starfar hjá viðskiptavinum félagsins. Origo getur þannig verið driffjöður í sjálfbærni á Íslandi með því að ganga á undan með góðu fordæmi.

Með skýrum og áreiðanlegum upplýsingum um árangur í sjálfbærnistarfinu tryggir Origo aðhald, virkir hagaðila sína og hvetur þá til dáða.

Hagaðilar sjálfbærnistefnuHagaðilar sjálfbærnistefnu

Ferðalag Origo til sjálfbærni

Árið 2015 setti Origo sér umhverfisstefnu og mótaði aðgerðaráætlun í umhverfismálum auk þess að skrifa undir Loftslagsyfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Festu. Átak hófst í flokkun á úrgangi árið 2016 og samið var við Klappir grænar lausnir árið 2017 um umhverfismælingar og mælingar á kolefnisspori fyrirtækisins.

Origo hefur í gegnum árin veitt margvíslega styrki til samfélagslegra málefna. Jafnlaunavottun hlaust í fyrsta sinn árið 2018 og fyrsta UFS uppgjörið var unnið í samstarfi við Klappir grænar lausnir árið 2019. Sjálfbærnistefnan var mótuð árið 2020 með breiðum hópi starfsmanna. Hún var endurskoðuð í lok árs 2022.

Hlutverk og skipulag

Stjórn félagsins samþykkir stefnuna en eigandi hennar er forstjóri Origo, sem ber jafnframt ábyrgð á reglulegri endurskoðun hennar að lágmarki á tveggja ára fresti.

Forstjóri er ábyrgur fyrir framkvæmd stefnunnar en hann skipar stýrihóp sem í sitja, ásamt honum sjálfum, framkvæmdastjóri fjármála, framkvæmdastjóri mannauðs og markaðsstjóri. Yfirumsjón með sjálfbærniverkefnum og verkefnastjórn heyrir undir markaðsdeild.

Nefndir á hverju sviði sjá um að framfylgja markmiðum og aðgerðum stefnunnar en hún samanstendur af útvöldum starfsmönnum.

Stefna um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð

Starfsemi Origo sem upplýsingatæknifyrirtæki snertir marga mismunandi þætti samfélagsins svo sem framleiðslu og notkun á búnaði auk ýmissa áhrifa vegna mannafla sem vinnur í virðiskeðjunni. Origo er stór kaupandi búnaðar og þjónustu og getur því haft áhrif bæði í eigin starfsemi svo og í samstarfi við birgja og samstarfsaðila. Upplýsingatækni verður án efa í stóru hlutverki þegar kemur að því að leysa verkefni samfélagsins í framtíðinni. Stuðningur við nýsköpun er því ein af megináherslum í samfélagsstarfinu.

Stefnan tekur í megin atriðum mið af UFS leiðbeiningum Nasdaq líkt og sjálfbærniupplýsingagjöf félagsins. Hún er þrískipt og tekur á þeim þáttum sem leiðbeiningar Nasdaq nota við að mæla og miðla umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Í markmiðum stefnunnar er tekið mið af núverandi stöðu samstæðunnar.

Órjúfanlegur hluti af stefnunni eru fimm markmið fyrir hvern flokk: umhverfismál, félagsleg málefni og stjórnarhætti. Einnig fylgir með nákvæm aðgerðaráætlun ásamt leiðum til að ná fram helstu markmiðum stefnunnar.

Sjálfbærniáherslur

Origo hefur skilgreint þrjú sérstök áherslusvið þar sem félagið getur sérstaklega haft áhrif í starfsemi sinni en þau eru nýsköpun, öryggi og heilbrigði.

  • Origo trúir því að áskoranir samfélagsins verði leystar með nýsköpun og tækni.

  • Stafrænt öryggi er samfélagslegt vandamál sem félagið vill taka þátt í að leysa. Enn fremur horfir Origo á öryggi í stærra samhengi, svo sem félagslegt öryggi og öryggi í stjórnarháttum.

  • Heilbrigðismál eru Origo hugleikin en félagið vill skapa lausnir sem auðvelda líf þeirra sem þiggja og veita heilbrigðisþjónustu. Origo vill bjóða starfsfólki sínu heilbrigt umhverfi og ætlast til að birgjar sínir geri það sama.

Fjórða áhersluatriðið, jafnréttismál, er undirstaðan í sjálfbærnistefnu Origo og forsenda þess að félaginu takist til. Nýsköpun eflist í heilbrigðu, öruggu og fjölbreyttu umhverfi þar sem allir njóta jafnra réttinda og kjara.

Sjálfbærniáherslur og mælikvarðar

Heimsmarkmiðin

Stefnan tekur einnig mið af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og grundvallast á þremur stoðum sjálfbærrar þróunar: efnahagslegrar, félagslegrar og umhverfislegrar.

Origo hefur skilgreint fjögur heimsmarkmið þar sem félagið getur haft sérstök áhrif á en þau eru; heimsmarkmið 5: jafnrétti kynjanna, heimsmarkmið 9: nýsköpun og uppbygging, heimsmarkmið 12: ábyrg neysla og heimsmarkmið 13: aðgerðir í loftslagsmálum.

Umhverfisþættir

Stefnuáherslur Origo í umhverfismálum fjalla um áhrif af starfsemi félagsins og leiðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum. Félagið stefnir að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eins og auðið er, minnka sóun í allri virðiskeðjunni og beitir mótvægisaðgerðum með kolefnisjöfnun á þeirri losun sem er til staðar.

Origo leitast við að mæla árangur sjálfbærnivinnu sinni og er stöðugt að auka og bæta mælingar á umhverfisáhrifum félagsins. Origo setur sér markið á að ná utan um kolefnislosun í umfangi 3 fyrir lok árs 2024.

Origo snertir marga hluta samfélagsins með þjónustu sinni og á marga hagaðila. Þannig getur félagið farið fram með góðu fordæmi og verið driffjöður í sjálfbærni. Origo mun með hjálp upplýsingatækni og þjónustu styðja viðskiptavini sína og aðra hagsmunaaðila í stafrænni vegferð sem minnka munu umhverfisáhrif þeirra.

Áherslur Origo í umhverfisþáttum styðja sérstaklega við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um ábyrga neyslu og aðgerðir í loftslagsmálum, heimsmarkmið 12 og 13.

Markmið Origo í sjálfbærnimálum

  • Origo leggur sitt af mörkum í þágu nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar samfélagsins og ætlar að stuðla að umhverfisvænni hegðun starfsmanna, viðskiptavina og annara hagaðila.

  • Félagið ætlar að mæla árangurinn og greina frá honum opinberlega.

  • Origo ætlar að draga úr myndun úrgangs og ná endurvinnsluhlutfalli í 90% fram til ársins 2030.

  • Origo vill stuðla að pappírslausu samfélagi, í eigin starfsemi og við að styðja við samstarfsaðila.

  • Origo ætlar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% til ársins 2030.

Félagslegir þættir

Stefnuáherslur Origo í félagslegum málefnum ná til innri verkefna; í þágu starfsmanna og starfsumhverfis og ytri verkefna; sem ná til viðskiptavina, birgja og annara hagaðila í samfélaginu. Kynjahlutföll í upplýsingatæknigeiranum eru ójöfn, með karlmenn í miklum meirihluta. Origo hefur sett sér skýra stefnu til að leiðrétta þetta og auka fjölbreytileika.

Lögð er áhersla á heimsmarkmið 5 um jafnrétti. Félagið hefur sett sér jafnréttisstefnu, jafnréttisáætlun og öðlast jafnlaunavottun BSI.

Origo hefur í gegnum árin veitt margvíslega styrki til samfélagslegra málefna og lagt áherslu á góða tengingu við starfsmenn og samfélagið. Ákvarðanir um styrkveitingu byggja á stefnu þessari og áherslunum: nýsköpun, öryggi og heilbrigði og við leitumst við að styrkja verkefni sem styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Origo gengur á undan með góðu fordæmi fyrir samfélagið og félagið sjálf.

Stelpur í tækniStelpur í tækni

Markmið Origo í félagslegum þáttum

  • Origo leggur áherslu á að allir fái notið sömu mannréttinda og tækifæra hjá félaginu og vinnur að því að efla fjölbreytileika meðal starfsfólks.

  • Origo vill styðja við nýliðun og aukna fjölbreytni í tæknigreinum.

  • Origo vinnur markvisst að því að stuðla að heilbrigði starfsmanna.

  • Origo samþykkir ekki misrétti á vinnumarkaði eða þrælkunar- og barnavinnu og mun fylgja því eftir í virðiskeðjunni.

  • Origo einbeitir sér að því að byggja upp menningu þar sem áhersla er lögð á nýsköpun, umhverfismál og jafnrétti.

Stjórnarhættir

Stefnuáherslur Origo í stjórnarháttum snúa að stjórn félagsins og stjórnendum, innra eftirliti og réttindum hluthafa. Stjórnkerfi Origo tekur mið af lögum um hlutafélög. Stjórn Origo hf. leitast við að viðhalda góðum stjórnarháttum og fylgja „Leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja" sem Viðskiptaráð Íslands, NASDAQ OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins hafa gefið út. Lögð er áhersla á að virða reglur um kjarasamninga og í siðareglum er fjallað um reglur og æskilega háttsemi birgja, aðgerðir gegn spillingu og mannréttinda- og persónuverndarmálefni.

Stjórnin hefur sett sér starfsreglur og skuldbinda stjórnarmenn sig til þess að hlíta þeim þegar þeir taka sæti í stjórn félagsins. Starfsreglurnar fjalla um hlutverk og framkvæmd starfa stjórnar félagsins og taka einnig að nokkru leyti til starfa forstjóra félagsins.

Lögð er mikil áhersla á reglulega upplýsingagjöf í sjálfbærnimálefnum og stefnt er að því að starfsemin verði tekin út af ytri aðila.

Markmið Origo í stjórnarháttum

  • Origo leggur áherslu á réttindi starfsmanna sinna.

  • Origo ætlar að endurskoða siðareglur birgja og innleiða birgjamat hjá samstæðunni.

  • Félagið ætlar að viðhafa stöðuga eftirfylgni við birgjamat.

  • Origo ætlar að upplýsa og fræða hagaðila sína um sjálfbærniverkefni Origo.

  • Origo leggur áherslu á öryggi gagna og persónuvernd fyrir viðskiptavini sína.