19/01/2023 • Birta Aradóttir

Það heitasta í tækninni árið 2023

Sérfræðingar okkar hjá Origo vega og meta hvað mun standa upp úr í tækninni árið 2023.

Arna Harðardóttir, Sölu- og markaðsstjóri Heilbrigðislausna Origo, Hrönn V. Runólfsdóttir, Digital Customer Success Manager hjá Origo og Inga Steinunn Björgvinsdóttir, Forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Þjónustulausnum Origo

Fjarlausnir hafa fest sig í sessi á vinnustöðum en þar spilar rétt tækni mikilvægt hlutverk, hvort sem það er góður búnaður eða tæknilegir innviðir. Gervigreind er í brennidepli en hún mun gera okkur kleift að sjálfvirknivæða ýmislegt út frá gögnum og spá fyrir um trend. Heilbrigðis- og velferðarþjónusta er í síauknum mæli að verða stafræn og fjarheilbrigðisþjónusta er ört vaxandi hluti almennrar heilbrigðisþjónustu. Öryggismál í upplýsingatækni og netöryggi hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú.

Fjarlausnir hafa fest sig í sessi

„Á síðasta ári skriðum við loksins út úr Covid og lífið varð aftur eðlilegt, eða svona nokkurn veginn. Það er nokkuð ljóst að við höfum tekið því opnum örmum að geta sótt fundi, kennslu og vinnu þaðan sem okkur hentar. Það er varla bókaður fundur án þess að boðið sé upp á þann möguleika að sækja hann rafrænt. Sömuleiðis bjóða þeir vinnustaðir sem það geta upp á fjarvinnu að hluta eða öllu leyti,“ segir Hrönn V. Runólfsdóttir, Digital Customer Success Manager hjá Origo.

Hrönn Runólfsdóttir, Digital Customer Success Manager hjá OrigoHrönn Runólfsdóttir, Digital Customer Success Manager hjá Origo

Til að allt gangi snurðulaust fyrir sig þá skiptir öllu máli að vera með réttu tæknina til staðar, hvort sem er góðan búnað eða tæknilega innviði. Við gerum þær kröfur að upplifunin sé nánast sú sama hvort sem setið er við fundarborðið eða heima. Við viljum að það heyrist vel í þeim sem talar og myndavélin beinist að þeim sem hefur orðið hverju sinni. Tækninni fleygir stöðugt fram og í nýjustu fundartækni frá Poly er nú mögulegt að sjá alla fundargesti í flísum, svipað því sem við eigum að venjast á fjarfundum. Við erum orðin vön að geta séð andlit fundargesta vel í gegnum fjarfundabúnað og viljum það líka þótt þeir sitji við fundarborðið.

Gervigreind er notuð í fjarfundabúnaði til að greina andlitGervigreind er notuð í fjarfundabúnaði til að greina andlit

Mikilvægi stafrænnar vegferðar í atvinnulífinu

Stofnanir og fyrirtæki, bæði stór og smá, eru að huga að sínum tæknilegum innviðum til að auka verðmætasköpun, samkeppnishæfni og ekki síst lífsgæði. Hin ýmsu fyrirtæki og þar á meðal Origo eru að bjóða upp á ráðgjöf til fyrirtækja á stafrænni vegferð þeirra. Þegar ferlar hafa verið krufnir til mergjar og tækifæri til umbóta greind, þá er að finna réttu lausnirnar til að bæta starfsemina. Lausnir eins og CRM (Customer Relationship Management) og PIM (Product Information Management) gera það að verkum að hægt er að safna saman upplýsingum á einn stað sem einfaldar yfirsýn, stuðlar að samvinnu og eflir öryggi upplýsinganna.

Þegar við erum að velja hugbúnaðarlausnir, þá erum við ekki aðeins að horfa á sjálfvirknivæðingu ákveðinna ferla heldur einnig gervigreind (AI). „Gervigreind gerir okkur kleift að sjálfvirknivæða ýmislegt út frá gögnum, spá fyrir um trend og þar af leiðandi getum við brugðist við strax. Dæmi um einfalda gervigreind eru spjallmenni á heimasíðum fyrirtækja sem svara spurningum viðskiptavina í stað þjónusturáðgjafa,“ segir Hrönn enn fremur.

5G og internet hlutanna

5G býður upp á meiri hraða og aukin afköst sem gerir það að verkum að það opnast enn stærri tækifæri í tækni og nýsköpun. Einhverjir vilja meina að 5G sé í raun límið í fjórðu iðnbyltingunni. Við erum við farin að sjá Internet hlutanna (e. Internet of Things / IoT) á ótrúlegustu stöðum. Fjöldinn allur af ýmiskonar hlutum eru orðnir nettengdir og tengdir saman:

  • 5G býður upp á möguleika að búa til samskiptanet á milli ótal tækja sem verður forsenda aukinnar sjálfvirknivæðingar t.d. í heilbrigðisþjónustu, landbúnaði og öðrum iðnuðum.

  • 5G mun gera okkur kleift að sinna ýmiskonar flóknum verkefnum úr fjarlægð svo sem viðgerðum og viðhaldi á flóknum vélum og læknar framkvæmt skurðaðgerðir.

  • 5G mun einnig bæta daglegt líf okkar. 5G er komið í suma bíla og þegar fram líða stundir munu bílarnir geta sent frá sér merki sem aðrir bílar geta skynjað, þetta á sömuleiðis við um umferðaljós og umferðaskilti. Þetta mun í framtíðinni umbylta allri umferð, gera hana öruggari, hraðari og skilvirkari.

Framfaraskref í fjarheilbrigðisþjónustu

Tækifærin innan heilbrigðistækni eru óteljandi og eru flest öll mjög brýn til að halda í við þá þjónustu sem sjúklingar og samfélagið í heild þarfnast í heilbrigðisþjónustu. Ýmsar áskoranir eru framundan og meðal annars hækkandi aldur þjóðarinnar. „Við sjáum fram á mörg tækifæri til að bæta og auka velferðarþjónustu til aldraðara með aukinni notkun á heilbrigðistækni sem hjálpar einstaklingum að vera lengur á sínu heimili þar sem tæknin aðstoðar við yfirsýn fyrir einstaklinginn, aðstandendur og velferðarkerfið,“ segir Arna Harðardóttir, Sölu- og markaðsstjóri Heilbrigðislausna Origo.

Arna Harðardóttir, Sölu- og markaðsstjóri Heilbrigðislausna OrigoArna Harðardóttir, Sölu- og markaðsstjóri Heilbrigðislausna Origo

„Síðustu ár höfum við sem samfélag séð kosti þess að nýta okkur miðlæga heilbrigðisgátt eins og Heilsuveru. Aukin nýtni á þeirri tækni sem hefur verið þróuð þar er gríðarlega mikilvæg og mun aðstoða okkur að taka mikilvæg framfaraskref í fjarheilbrigðisþjónustu. Fjarlækningar geta aukið þjónustu til einstaklings til muna og auðveldað alla ferla innan heilbrigðiskerfisins. Covid sýndi okkur ýmsa nýja valmöguleika með aukinni notkun rafrænna samskipta og öðrum stafrænum boðleiðum við heilbrigðisstarfsfólk,“ segir Arna enn fremur.

Heilbrigðis- og velferðarþjónusta er stafræn í síauknum mæliHeilbrigðis- og velferðarþjónusta er stafræn í síauknum mæli

Heilbrigðis- og velferðarþjónusta er í síauknum mæli að verða stafræn bendir Arna á: „Við höfum séð mikla aukningu á notkun snjalltækja sem við sem einstaklingar notum til að fylgjast með og vakta okkar heilsu, svefn, mataræði og fleira. Við sjáum fram á að með heilbrigðistækni getum við gefið einstaklingum betri yfirsýn yfir sína heilsu og byggjum vonir við að einstaklingurinn verði stærri þáttakandi í sinni meðferð innan heilbrigðiskerfisins með hjálp tækninnar.“

Öryggismálin í brennidepli

Vitund um mikilvægi öryggis í upplýsingatækni hefur aukist til muna undanfarin misseri. Hvað sem því líður þá þróast aðferðir tölvuþrjóta á ógnarhraða og þurfum við sem erum að vinna í öryggismálum því að gera það líka.

„Það er okkar von að öryggisvitund haldi áfram að aukast enn frekar á nýju ári. Fyrirtæki og stofnanir virðast vera að vakna til lífsins hvað varðar stafrænt öryggi. Það þarf að huga að öryggismálum sama hversu lítið eða stórt fyrirtækið er. Það hefur sýnt sig á síðustu mánuðum að tölvuþrjótar eru orðnir mjög óvægir og árásum fjölgar þar sem fjarvinna hefur aukist mjög mikið. Stórar árásir á íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir undanfarið hafa sýnt það er á allra ábyrgð að vera með öryggismálin á hreinu,“ segir Inga Steinunn Björgvinsdóttir, Forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Þjónustulausnum Origo.

Inga Steinunn Björgvinsdóttir, Forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Þjónustulausnum OrigoInga Steinunn Björgvinsdóttir, Forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Þjónustulausnum Origo

Það er mikilvægt að fyrirtæki séu meðvituð um hvað eru mikil verðmæti fólgin í því að vera með vel varið upplýsingatækniumhverfi. Fyrirtæki sem lenda í tölvuárásum geta orðið fyrir töfum eða jafnvel stöðvun á starfsemi sinni og þannig tapað miklum fjármunum. Það er því dýrkeypt að hafa ekki réttu öryggislausnirnar til staðar. Þörfin fyrir slíkar varnir fer ekki eftir stærð fyrirtækisins eða fjölda starfsmanna. Þótt fyrirtækið sé ekki mjög stórt eða fjölmennt, þá er það í samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila og þurfa þar af leiðandi að verja þau samskipti og þau gögn sem verða til.

Gögn eru lífæð nútíma starfssemi

Góðar afritunarlausnir er lykillinn í því að fyrirbyggja skaða sem getur hlotist af gagna- og netárásum. Staðreyndin er því miður sú að það er ekki spurning hvort fyrirtæki verða fyrir netárás, heldur hvenær. Mörg fyrirtæki sem segjast ekki hafa orðið fyrir netárás hafa líklegast orðið fyrir árás án þess að vita af því, þar sem þau hafa ekki búnað til staðar til að láta þau vita.

Það er mikilvægt að fyrirtæki taki öryggisafritÞað er mikilvægt að fyrirtæki taki öryggisafrit

Fyrirtæki ná aldrei að byggja upp varnir sem ná að stoppa allar árásir því hakkarar fá aragrúa tækifæra til að gera árásir. Því er mikilvægt fyrir fyrirtæki að skilgreina mikilvæg kerfi og gögn, taka afrit af þeim og þannig takmarka markvisst skaðann af netárásum. Það eru ekki allir sem vita það að skýjalausnir tryggja ekki gögn fyrirtækja, þau tryggja uppitíma. Í notkunarskilmálum skýjalausna er sérstaklega tekið fram að það sé mikilvægt að taka afrit af gögnum sem eru sett á skýjalausnina. Þá er sérstaklega mikilvægt að velja skýjalausn sem auðveldar fyrirtækjum afritunartöku.

https://images.prismic.io/new-origo/35f94eeb-cb16-4598-86cb-fd7a70f56b35_MicrosoftTeams-image+%281%29.png?auto=compress,format&rect=946,0,3098,3442&w=900&h=1000

Höfundur bloggs

Birta Aradóttir

Markaðssérfræðingur

Deila bloggi