02/01/2025
Árið hjá Origo: Sjálfbærni og nýsköpun í forgrunni
Árið 2024 var svo sannarlega viðburðaríkt hjá Origo og ætlum við að draga saman nokkra liðna atburði sem gerðust á árinu.

Fjölmargar nýjungar og viðbætur sem einfalda lífið
Við trúum því að betri tækni bætir lífið og þess vegna sjáum við til þess að a.m.k.15% af tíma starfsmanna okkar sé varið í nýsköpun. Við erum stöðugt að þróa lausnir og þjónustu með það að markmiði að viðskiptavinur okkar skari fram úr. Fjöldi spennandi nýjungar og viðbætur litu dagsins ljós á síðastliðnu ári.
Rúna launavakt á markað
Rúna launavakt kom á markaðinn í september, en Rúna launavakt er snjöll lausn sem færir fyrirtækjum nýjustu launaupplýsingar á markaði, á aðgengilegan og skiljanlegan hátt. Rúna veitir stjórnendum yfirsýn yfir launagögn á einfaldan og fljótlegan máta þar sem gögnin eru nákvæm en skiljanleg. Launagögnin eru byggð á ferskum órekjanlegum gögnum frá samstarfsfyrirtækjum Rúnu og eru uppfærð mánaðarlega. Nú þegar eru komnir yfir 10.000 launþegar í kerfið.
Origo og KPMG þróa sjálfvirka lausn sem greinir kolefnisspor
Origo og KPMG kynntu til leiks nýja lausn, GreenSenze, en lausnin greinir kolefnisspor í innkaupum fyrirtækja. Áhersla á greiningar á kolefnisspori í rekstri fyrirtækja hefur aukist til muna síðustu ár en þó glíma mörg fyrirtæki við áskoranir í greiningum á þessum þætti í rekstrinum. Kröfur stjórnvalda og hagaðila fyrirtækja um upplýsingagjöf á kolefnisspori fyrirtækja eru sífellt að aukast og munu flest fyrirtæki þurfa að standa skil á greiningum á kolefnisspori sínu á næstu árum.

Kjarni mannauðs- og launakerfi í sífelldri þróun
Kjarni mannauðs- og launakerfi er ávallt í sífelldri þróun en margar viðbætur og nýjungar hafa litið dagsins ljós. Má þar nefna sem dæmi snjallforrit Kjarna. Snjallforritið eykur aðgengi starfsmanna sem eru á ferðinni til muna og býður það upp á alla þá fjölbreyttu virkni sem Starfsmannavefurinn hefur upp á að bjóða.

Skapandi samstarf á UTmessunni
Origo tók þátt á UTmessunni í febrúar og var básinn í ár vægast sagt glæsilegur og í raun ætti frekar að tala um hann sem listaverk og upplifun frekar en hefðbundinn sýningabás. Verkið var unnið í samstarfi við auglýsingastofuna Tvist en það er þrívíddarhönnuðurinn og listakonan María Guðjohnsen sem á heiðurinn af listaverkinu sem gestir og gangandi gátu borið augum og upplifað.
Þrátt fyrir mikla umræðu um snjallvæðingu og gervigreind, þá er verkið ákveðin hugvekja um að öll tækni er knúin áfram af mannlegu hugviti og sköpunarkrafti. Þarfir og væntingar fólks knýja fram nýjar hugmyndir og er tæknin stöðug uppspretta framfara og nýsköpunar.

Origo gerist aðalstyrktaraðili Landsbjargar
Á árinu gerðu Slysavarnafélgið Landsbjörg og Origo samstarfssamning þar sem Origo gengur í hóp aðalstyrktaraðila Landsbjargar.
Yfirskrift samstarfsins er „Finnum leiðina: Samstarf okkar skapar öryggi“ og sérstök áhersla lögð á stuðning við Landsbjörg í upplýsingatækni og netöryggismálum. Starfsemi Origo byggir á trausti og áreiðanleika og það er það markmið fyrirtækisins að vera í framvarðasveit þeirra þjónustuaðila á íslenskum markaði sem stuðla að öruggu rekstrarumhverfi og þjónustu, bæði gagnvart eigin innviðum og fyrir viðskiptavini. Starfsfólk Origo gleðst yfir því að hefja samstarf við hina eiginlegu framvarðarsveit íslensks öryggis.

Origo er samstarfsaðili ársins hjá Pedab
Á árinu veitti Pedab verðlaun til samstarfsaðila í Danmörku og Íslandi sem hefur skarað fram úr og náð eftirtektarverðum árangri með framboði og þróun nýrra lausna sem gagnast hafa viðskiptavinum í þeirra samkeppni. Origo hefur átt farsælt samstarf við Pedab og þakkar þeim ómetanlegan stuðning í gegnum árin við þróun lausna frá IBM.

Uppspretta gagna
Nýsköpunarviðburður Origo var haldinn á lokadegi Innovation Week í maí en Origo er einn af bakhjörlum vikunnar. Um 3500 manns sækja viðburðinn heim og það má með sanni segja að vikan sé suðupottur nýsköpunar á Íslandi. Á viðburðinum sem Origo stóð fyrir flutti reynslumikið fagfólk áhugaverð erindi um ýmsar lausnir og þá nýsköpun sem þær byggja á.

Origo hlaut viðurkenningu Sjálfbærniássins 2024
Origo hlaut viðurkenningu Sjálfbærniássins árið 2024 en fyrirtækið mældist hæst af upplýsingatæknifyrirtækjum. Sjálfbærniásinn er nýr mælikvarði sem metur viðhorf almennings til frammistöðu íslenskra fyrirtækja og stofnana í sjálfbærnimálum.
Við trúum því að tæknin muni leika mikilvægt hlutverk í að leysa áskoranir samfélagsins í framtíðinni. Þess vegna höfum við sett okkur fjórar megináherslur og markmið sem eru grunnurinn að sjálfbærnistefnu Origo. Þær eru öryggi, nýsköpun, heilsa og jafnrétti.

Origo Fyrirmyndafyrirtæki VR 2024
Origo hlaut nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki VR 2024. Umfangsmikil rannsókn VR liggur að baki sem byggir á níu lykilþáttum. Heildareinkunn fyrirtækja er reiknuð út frá viðhorfi starfsfólks til ólíkra þátta starfsumhverfis, svo sem stjórnun, launakjör, starfsanda, jafnrétti og starfsánægju.
Þetta er fimmta árið sem við hljótum þennan titil. Við munum halda áfram að hafa gleðina í fyrirrúmi alla daga, vinna að jafnrétti kynjanna, efla nýsköpun, sinna sjálfbærri þróun og umhverfismálum, ásamt því að hlúa vel að heilsu og vellíðan starfsfólks okkar.

Origo tilnefnt sem eitt af bestu vörumerkjum á fyrirtækjamarkaði
Origo hefur hlotið tilnefningu sem besta íslenska vörumerkið á fyrirtækjamarkaði 2024 en verðlaunin eru á vegum vörumerkjastofunnar Brandr.
Þau vörumerki sem valin eru þykja skara fram úr þegar horft er til stefnumiðaðrar vörumerkjastýringar. Ferlið byggir á akademískri og faglegri nálgun vörumerkjastjórnunar með staðfærslu sem þungamiðju.

Með þakklæti fyrir gott ár sem er að líða, horfum við spennt til framtíðar og hlökkum til að halda áfram að hjálpa viðskiptavinum okkar að ná árangri með tækninni.
Deila frétt